Mikil fjölgun nemenda í háskólum og framhaldsskólum á síðustu árum

Háskólastúdentum hefur fjölgað um 64% frá árunu 2000.
Háskólastúdentum hefur fjölgað um 64% frá árunu 2000. mbl.is/ÞÖK

Haustið 2006 voru skráðir nemendur á framhalds- og háskólastigi fleiri en nokkru sinni fyrr eða 44.129. Í framhaldsskóla voru skráðir 26.958 nemendur og 17.171 nemendur í háskóla. Fjöldi skráðra nemenda í námi á háskólastigi hefur aukist um 63,6% frá hausti 2000 en nemendum á framhaldsskólastigi hefur fjölgað um 35,4% á sama tímabili að sögn Hagstofunnar.

Haustið 2006 stunduðu 81% nemenda nám í dagskóla, 13,6% nemenda voru skráðir í fjarnám og 5,4% nemenda stunduðu nám í kvöldskólum. Hagstofan segir, að kvöldskólanám hafi verið á undanhaldi allt frá 2003 en það haust var 8,1% nemenda skráð í kvöldskólanám.

Nemendum í fjarnámi hefur fjölgað talsvert frá haustinu 2005 en sú fjölgun er öll á framhaldsskólastigi (37,6%). Nemendum í fjarnámi á háskólastigi fækkaði hins vegar um 5,4% frá síðasta ári.

Fleiri konur í námi
Á haustmisseri 2006 voru konur umtalsvert fleiri en karlar meðal nemenda í framhaldsskólum og háskólum eða 57,7% (25.447) en karlar eru 42,3% (18.682) nemenda. Haustið 2000 voru hlutföllin þau að konur voru 56,3% nemenda á þessum tveimur skólastigum en karlar 43,7%. Þessi munur á skólasókn kynjanna hefur því haldist allt frá árinu 2000 og aukist lítillega síðan þá, segir Hagstofan.

Hlutur kvenna er talsvert meiri í háskólum en framhaldsskólum. Haustið 2006 voru konur 54,5% nemenda í framhaldsskólum en meðal nemenda í háskólum var hlutur kvenna 62,7%. Í Háskóla Íslands voru konur fjölmennari en karlar í 10 deildum af 11. Karlar voru einungis fjölmennari í verkfræðideild en þar voru konur 30% nemenda en karlar 70%. Mestur var munurinn í hjúkrunarfræðideild en þar voru konur 96% nemenda en karlar 4%. Jafnast var hlutfall kynja í viðskipta- og hagfræðideild og lagadeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert