Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins í umhverfisráði Reykjavíkur mótmæla hækkun á fargjöldum Strætó bs. sem fulltrúarnir segja vera 6,7%-33%.
Í tilkynningu frá flokkunum segir, að þessi hækkun gangi í berhögg við stefnu Reykjavíkurborgar um að efla almenningssamgöngur í því markmiði að bæta umhverfi, heilsu og borgarbrag. Þessar hækkanir bitni á þeim sem síst skyldi, fólki sem velji umhverfisvænan samgöngumáta.
„Stjórn Strætó bs. skýlir sér á bak við það að lækka staðgreiðslugjald unglinga 12-18 ára niður í 100 kr. sem er afar jákvæð aðgerð, en það er þó gert með því að hækka staðgreiðslugjald barna yngri en 12 ára um 33% eða úr 75 kr. í 100 kr. Engin rök fylgja hækkununum enda eru þær a.m.k. tvöfalt meiri en verðbólguspá fyrir árið 2007. Á sama tíma voru framlög Reykjavíkur til Strætó lækkuð við afgreiðslu fjárhagsáætlunar sem lýsir metnaðarleysi gagnvart þessum mikilvæga málaflokki," segir í tilkynningunni.