Verið er að kanna hvort Flugfjarskipti ehf. geti fengið til afnota fjarskiptamöstur sem bandaríski herinn reisti við fjallið Þorbjörn við Grindavík en hefur nú hætt að nota. Þetta hefur Morgunblaðið eftir áreiðanlegum heimildum.
Brandur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Flugfjarskipta, vildi ekki staðfesta þetta í gær en sagði að félagið væri enn að leita að landi undir möstur sem nú eru á Rjúpnahæð í Kópavogi. Ýmsir möguleikar hefðu verið kannaðir í því sambandi.
Í sumar keyptu Flugfjarskipti jörð í Flóahreppi og hugðust reisa þar tíu 18–36 metra há möstur en urðu að hætta við vegna andstöðu sveitarstjórnar. Kópavogsbær hefur skipulagt byggð á hæðinni sem möstrin standa á og verða þau að vera farin fyrir næsta haust, eigi framkvæmdir ekki að tefjast.