Ólafur Ragnar flutti ræðu á indverskri ráðstefnu um sjálfbæra þróun

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Ómar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti í morgun ræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um sjálfbæra þróun sem haldin er í Delhi á Indlandi í vikunni. Í fyrirsvari fyrir ráðstefnunni er Dr. R. K. Pachauri, aðalframkvæmdastjóri tækni- og vísindastofnunarinnar TERI á Indlandi. Dr. Pachauri stýrir jafnframt samstarfshópi um 3000 vísindamanna um mat á hættum vegna loftslagsbreytinga.

Þá voru forseti Íslands og Tarja Halonen, forseti Finnlands, heiðursgestir á fundi indverskra fyrirtækja sem haldin var í gær. Á fundinum var einkum rætt um samspil orkubúskapar, loftslagsbreytinga og efnahagslegrar þróunar. Þátttakendur voru forystumenn á fjölmörgum sviðum indversks efnahagslífs og fluttu báðir forsetarnir ræður á fundinum.

Í ræðu sinni við setningarathöfn ráðstefnunnar í morgun fjallaði Ólafur Ragnar um möguleika á samstarfi Indverja og Íslendinga um nýtingu hreinna orkulinda svo sem jarðhita. Hann nefni þann árangur sem orðið hefði í samstarfi þjóðanna eftir opinbera heimsókn forseta Indlands til Íslands árið 2005. Þá rakti hann hvernig Ísland gæti orðið miðstöð fyrir samræður, rannsóknir og ákvarðanir á sviði hreinnar orku og stuðlað þannig að breyttri orkunýtingu á heimsvísu um leið og hamlað yrði gegn hættum vegna loftslagsbreytinga.

Í ræðu sinni ítrekaði Ólafur Ragnar þær áherslur sem fram komu í nýársávarpi hans hinn 1. janúar síðastliðinn og óskaði eftir samvinnu við rannsóknarstofnanir, fyrirtæki, samtök og sérfræðinga á Indlandi.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands verður á ráðstefnunni m.a. fjallað um hættuna á varanlegum loftslagsbreytingum og áhrif þeirra á lífshætti og lífsskilyrði í heiminum, þróun orkumála í veröldinni og hlutverk endurnýjanlega orkugjafa, ekki síst með tilliti til Indlands og Kína, vatnsbúskap í Asíu og Afríku, tækninýjungar og baráttuna gegn fátækt.

Meðal þátttakenda á ráðstefnunni eru m.a. Tarja Halonen forseti Finnlands, Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hagfræðingurinn Jeffrey Sachs, Ruud F. M. Lubbers, fyrrverandi forsætisráðherra Hollands og Nicholas Stern, höfundur svokallaðrar Stern-skýrslu um loftslagsmál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka