Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stela peningum úr læstum kössum og skúffum á skrifstofu Mjólkurbús Flóamanna á Selfossi. Maðurinn hafði aðgang að skrifstofunni en hann starfaði sem öryggisvörður.
Alls stað maðurinn rúmlega 54 þúsund krónum í peningum og einnig tölvu og flatskjá. Þetta gerðist á fyrrihluta síðasta árs.
Fram kemur að maðurinn játaði brot sín fyrir dómi. Hann sagðist hafa verið í fíkniefnaneyslu á þessum tíma og hafi brotin verið til að fjármagna neysluna. Maðurinn sagðist hafa leitað sér aðstoðar og farið í meðferð síðast liðið haust á Vog og síðan á Staðarfell og sæki nú reglulega AA fundi.