Röskva telur RÚV frumvarp skaða námsmenn

Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, hefur sent frá sér ályktun þar það tillitsleysi sem birtist í frumvarpi menntamálaráðherra í garð námsmanna sé harmað.

Fram kemur að nefskattur, óháður viðtækjaeign, geti haft miklar fjárhagslegar afleiðingar fyrir þá námsmenn sem séu með yfir 850.000 krónur á ári í tekjur. Sem dæmi megi nefna að tveir námsmenn í sambúð í stúdentaíbúð þurfi að greiða 29.160 krónur á ári í nefskatt, óháð því hvort þeir eigi sjónvarpstæki, segir í ályktuninni. „Þetta er talsverð kjaraskerðing fyrir námsmenn og ótrúlegt að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að námsmenn allir yfir 16 ára aldri hafi lægri árstekjur en 850.000 krónur. Það stenst ekki skoðun. Frumvarpið hyglir stórefnamönnum sem einungis greiða fjármagnstekjuskatt, en bitnar á þeim sem síst mætti. Röskva tekur ekki afstöðu til frumvarpsins eða rekstraforms Ríkisútvarpsins, nema hvað varðar þessa hagsmuni námsmanna,“ segir í ályktun Röskvu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert