Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 100 þúsund króna sekt og svipt hann ökuréttindum í ár fyrir að hafa bíl í gangi á bílastæði og aka honum úr stað um það bil metra. Maðurinn var sofandi í bílnum þegar lögregla kom að á sunnudagsmorgni í ágúst sl. og var áfengismagn í blóði hans 1,25‰.
Bíll mannsins stóð á bílastæði við Iðnskólann í Reykjavík. Vegfarendur hringdu í lögreglu og tilkynntu að maður svæfi í bílnum, sem væri í gangi. Vitnin sögðust einnig hafa séð bílinn færast 1-2 metra út úr bílastæðinu.
Þegar lögregla kom að var bíllinn ekki í gangi með maðurinn sat sofandi við stýrið. Vél og púströr bílsins voru heit og engin móða á gluggum.
Fyrir dómi sagðist maðurinn hafa farið í bíl sinn undir morgun að aflokinni skemmtun á menningarnótt til að spara gistikostnað en maðurinn býr úti á landi. Sagðist maðurinn hafa hallað ökumannssætinu aftur og sofnað. Hann sagðist hafa sett útvarpið á en neitaði því alfarið að hafa gangsett bifreiðina eða fært hana úr stað. Þá neitaði hann því að hafa lagst fram á stýrið.
Dómurinn segir, að framburður mannsins stangist í veigamiklum atriðum á við framburð þriggja vitna, sem sé samhljóma og staðfastur. Taldi dómurinn sannað, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að bíllinn hefði færst úr stað.
Auk sektarinnar var maðurinn dæmdur til að greiða sakarkostnað, nærri 191 þúsund krónur.