Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, á Alþingi í dag hvort til greina komi að endurskoða framhaldsúrræði fyrir menn, sem haldnir eru svonefndri barnagirnd á háu stigi. Spurði Björgvin m.a. hvort til greina kæmu úrræði sem byggðu á öryggisgæslu eftir afplánun dóma.
Tilefni spurningarinnar var, að í sjónvarpsþættinum Kompási á Stöð 2 í gær, var tálbeita notuð til að kanna barnaveiðar á netinu og gekk þar í gildruna dæmdur barnaníðingur, sem fyrir 2½ ári var dæmdur í sex ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn börnum. Maðurinn er í vistun á Vernd og hafði aðgang að tölvu. Lögreglan hefur lagt hald á tölvur mannsins en grunur leikur á að í þeim sé ólöglegt efni.
Björgvin sagði, að þátturinn hefði sýnt alvarlega brotalöm í kerfinu þar sem maður, sem ætti heima á lokaðri réttargeðdeild hefði verið vistaður í fangelsi og væri laus til reynslu og nyti takmarkaðrar sálfræðiaðstoðar.
Björn Bjarnason sagðist ekki vilja ræða málefni einstaklinga. Hann sagði að verið væri að skoða mörg álitaefni í tengslum við málið og vafalaust yrði birt skýrsla um það síðar. Þá benti Björn á, að fyrir allsherjarnefnd Alþingis lægju breytingar á þeim kafla almennra hegningarlaga sem vörðuðu kynferðisbrot og þessi mál væru því til meðferðar í þinginu.