Umfjöllun um RÚV-frumvarp lauk skyndilega

Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi á blaðamannafundinum.
Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi á blaðamannafundinum. mbl.is/RAX

Umræðu um frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið ohf. lauk skyldilega á Alþingi í dag eftir að Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, las upp sameiginlega yfirlýsingu frá stjórnarandstöðuflokkunum þremur, þar sem fram kom að umfjöllun flokkanna um frumvarpið væri lokið að sinni.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar á Alþingi boðuðu til blaðamannafundar í þinghúsinu klukkan 11:15 í dag þar sem því var lýst yfir, að umfjöllum um frumvarpið myndi ljúka í dag. Þriðja umræða um frumvarpið stóð yfir alla síðustu viku og hófst að nýju í morgun. Þá voru enn á annan tug þingmanna á mælendaskrá en eftir að Mörður hafði lesið yfirlýsinguna tæmdist mælendaskráin skyndilega og umræðunni lauk. Enginn tók til máls um fylgifrumvarp um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Í yfirlýsingu stjórnarandstöðuflokkanna segir m.a., að ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafi kosið að afgreiða frumvarp um Ríkisútvarpið í miklum ágreiningi við stjórnarandstöðuna. Forystumenn þessara flokka hafi hafnað öllum sáttaboðum.

Ríkisstjórnin hafi með þessu kosið að setja pólitíska hagsmuni sína ofar velferð Ríkisútvarpsins og ljóst sé, að nýrrar ríkisstjórnar bíði það verkefni að taka málefni Ríkisútvarpsins til endurskoðunar með það í huga að skapa um þau sátt til frambúðar. Samfylkingin, Vinstrihreyfingin-grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn sé sammála um hvaða markmið beri að hafa að leiðarljósi við slíka endurskoðun. Í yfirlýsingunni eru markmiðin síðan rakin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert