Viðgerð á Cantat-3 sæstrengnum hefur verið frestað vegna veðurútlits. Með tilliti til þessa var strengurinn gangsettur að nýju til Evrópu síðdegis 18. janúar s.l. og er vonast til að fjarskiptaumferð í þá átt verði með eðlilegum hætti þar til tækifæri gefst til viðgerðar, að því er segir í tilkynningu.
Viðgerðarskipið CS Pacific Guardian kom á bilunarstað Cantat-3 sæstrengsins mánudaginn 15. janúar s.l. Veður og sjólag á svæðinu hefur verið mjög slæmt og því hefur ekki gefist tækifæri til að hefja viðgerð á strengnum.
Vegna veðurútlits hafa rekstraraðilar strengsins því ákveðið að fresta viðgerð að sinni og er viðgerðarskipið á leið til heimahafnar á Bermúda.
Um miðjan desember bilaði Cantat strengurinn og tók tæpar 20 klukkustundir að ljúka bráðabirgðaviðgerð á austurhluta strengsins til Evrópu. Á meðan voru allir háskólar landsins, að Hólaskóla undanskildum, Landspítalinn – háskólasjúkrahús, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og fjöldi rannsóknastofnana netsambandslaus við umheiminn.
Fjarskiptasamband Íslands við umheiminn er um tvo sæstrengi; hinn 12 ára gamla Cantat-3 og Farice sem var tekinn í notkun fyrir tveimur árum. Nýlega lagði nefnd á vegum Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra að þriðji strengurinn yrði lagður til þess að tryggja öruggt varasamband við útlönd.