Enginn grundvöllur er fyrir útflutningi á hvalkjöti til Japans og eru þar með engin rök fyrir hvalveiðum Íslendinga. Þetta segir Frode Pleym talsmaður Grænfriðunga, en samtökin boðuðu til blaðamannafundar í dag. 4.702 tonn af óseldu hvalkjöti var að meðaltali geymt í frystum í Japan á síðasta ári, og hafði nær tvöfaldast frá árinu 2002.
Blaðamannafundurinn var haldinn í tilefni þess að breska umhverfisráðuneytið hefur ákveðið að hefja herferð sem miðar að því að fá fleiri þjóðir til liðs við Alþjóða hvalveiðiráðið til liðs við Breta og önnur ríki sem andvíg eru hvalveiðum.
Pleym segir íslenska markaðinn það lítinn og möguleika á útflutningi hverfandi og ókostir þess að halda áfram hvalveiðum séu því mun fleiri en kostirnir.
Bendir Pleym á neikvæð viðbrögð við hvalveiðunum og áhrif á ferðamannaiðnaðinn, herferð breska umhverfisráðuneytisins sem njóti fulltingis Tony Blair og sjónvarpsmannsins David Attenborough og að stórfyrirtæki á borð við Baug og Icelandair hafi lýst sig andvíg hvalveiðum.
Óselt hvalkjöt á lager í Japan taldi að meðaltali 4.702 tonn á síðasta ári og 3.944 árið 2005. Þetta er talsverð aukning en árið 2002 voru að meðaltali 2.460 tonn geymd óseld í frystum samkvæmt upplýsingum frá japanska landbúnaðarráðuneytinu.
Pleym segir eftirspurnina eftir hvalkjöti hverfandi í Japan og miklar byrgðir hafi myndast, stjórnvöld hafi gripið til þess ráðs að selja kjötið til skóla og reynt að selja einkaaðilum, m.a. til framleiðslu á hundamat.
Því hljóti að vera ólíklegt að það takist að selja Japönum hvalkjöt, og að hagnaður af slíkri sölu yrði svo lítill að það svari ekki kostnaði fyrir Íslendinga, hvorki efnahagslega né í stjórnmálalegu tillliti