Fram kom á Alþingi í dag, að rekstarhalli á Ríkisútvarpinu var 420 milljónir króna á fyrri hluta síðasta árs. Uppsafnaðar skuldir eru 5168 milljónir króna. Langtímaskuldir eru 3303,2 milljónir og þar af er skuld við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins vegna lífeyrisskuldbindinga um 3 milljarðar kr. Skammtímaskuldir eru 1865,2 milljónir og þar af skuld við ríkissjóð 1167,2 milljónir.
Þetta kemur fram í svari menntamálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns VG. Í svarinu kemur fram, að fyrir liggi óendurskoðuð staða miðað við janúar til nóvember 2006 og sé rekstrarstaðan neikvæð um 434 milljónir. Nýrri staða liggur ekki fyrir nú.
Bent er á, að í tengslum við breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins í Ríkisútvarpið ohf. sé gert ráð fyrir breytingum og að eiginfjárhlutfall félagsins verði 15% 2007.
Í svarinu kemur einnig fram, að árið 2004 var halli á rekstri Ríkisútvarpsins 49,8 milljónir og 196,2 milljónir árið 2005. Heildarskuldir í ársreikningi 2004 voru 4708,4 milljónir, þar af var skuld við ríkissjóð 804,7 milljónir. Heildarskuldir í ársreikningi 2005 voru 4852,5 milljónir, þar af var skuld við ríkissjóð 932,7 milljónir.