Ríkislögreglustjóri víki sæti í skattamáli

Haraldur Johannessen og Jón H. B. Snorrason á blaðamannafundi í …
Haraldur Johannessen og Jón H. B. Snorrason á blaðamannafundi í október 2005 þar sem þeir tjáðu sig um Baugsmálið. mbl.is/Júlíus

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, skuli víkja sæti í rannsókn embættisins á ætluðum skattalagabrotum fimm núverandi og fyrrverandi forsvarsmanna Baugs Group. Var talið að Haraldur hefði með tilteknum ummælum orðið vanhæfur í málinu. Þarf dómsmálaráðherra nú að skipa sérstakan ríkislögreglustjóra í málinu. Hæstiréttur hafnaði hins vegar kröfum um að aðrir starfsmenn ríkislögreglustjóraembættisins víki einnig sæti og einnig kröfum um að rannsókn málsins yrði dæmd ólögmæt.

Vísað var til ummæla, sem Haraldur viðhafði við fjölmiðla í október 2005 eftir að embætti ríkissaksóknara hafði tekið við meðferð Baugsmálsins af efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 sagði ríkislögreglustjóri orðrétt um þetta: „Ég held að það sé heppilegast vegna framgangs málsins, framtíð þessa máls, að ríkissaksóknari taki ákvarðanir um þau efni. Það er hægt að með rökum að halda því fram að ríkislögreglustjóraembættið sé orðið of innvolverað í þetta mál til þess að geta litið hlutlaust á þær ákvarðanir sem að þarf að taka í framhaldinu.“

Í kvöldfréttatíma Sjónvarpsins sama kvöld sagði ríkislögreglustjóri eftirfarandi: „Ég held að ef að ríkislögreglustjóri sé áfram með þetta mál hér innanhúss að allar ákvarðanir sem við kynnum að hafa tekið í sambandi við áframhald málsins myndu ekki vera trúverðugar í hugum almennings eins og umræðan hefur verið í þjóðfélaginu.“

Ummæli skírskota til sjónarmiða um sérstakt hæfi
Hæstiréttur segist ekki fallast á það, að með þessum ummælum hafi ríkislögreglustjóri verið að lýsa yfir vanhæfi sínu og embættis síns í málinu. Ummælin skírskoti þó með ákveðnum hætti til sjónarmiða um sérstakt hæfi og verði að líta svo á, að þau endurspegli huglæga afstöðu ríkislögreglustjóra til málsins. Ummælin verði ekki skilin á annan hátt en þann, að ríkislögreglustjóri telji að með réttu megi álíta að embætti hans sé ekki treystandi til að líta hlutlaust á málavexti.

Hæstiréttur segir, að hefði dómari viðhaft sams konar ummæli opinberlega hefði hann orðið vanhæfur til að leysa úr því. Því verði að líta svo á, að ríkislögreglustjóri hafi, þegar hann lét ummælin falla, orðið vanhæfur til að halda áfram meðferð Baugsmálsins. Í ljósi þeirra nánu tengsla, sem séu milli rannsóknar ríkislögreglustjóra, sem leiddi til útgáfu ákærunnar í Baugsmálinu, og þeirrar rannsóknar sem mál þetta lúti að, þ.e. rannsókn á meintum skattalagabrotum, verði að telja að ríkislögreglustjóri sé vanhæfur í málinu í ljósi ummæla sinna.

Sérstakur ríkislögreglustjóri skipaður
Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að sé ríkislögreglustjóri talinn vanhæfur í tilteknum málum beri dómsmálaráðherra, samkvæmt lögreglulögum, að setja sérstakan ríkislögreglustjóra til að fara með viðkomandi rannsókn. Ákæra verði ekki reist á rannsókn vanhæfs ríkislögreglustjóra, en eftir að settur ríkislögreglustjóri taki við máli fari rannsókn fram í skjóli valdheimilda hans. Honum beri að rannsaka málið í samræmi við þá grundvallarreglu, að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að atriðum sem horfa til sýknu og sektar.

Þá segir, að eftir að nýr ríkislögreglustjóri hafi verið settur ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að starfsmenn ríkislögreglustjóraembættisins megi vinna að rannsókninni undir stjórn hans hafi þeir ekki sjálfir bakað sér vanhæfi með störfum sínum.

Segir Hæstiréttur, að ekkert liggi fyrir um að atvik í máli þessu séu með þeim hætti, að starfsmenn ríkislögreglustjóra eigi að teljast vanhæfir. Þá verði að leggja til grundvallar að ríkislögreglustjóri, hafi aðeins verið að lýsa eigin afstöðu til málsins undir sinni stjórn.

Hæstiréttur segir, að þau ummæli sem Jón H. B. Snorrason, saksóknari og þáverandi yfirmaður efnagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, viðhafði í fjölmiðlum og sem vitnað sé til í kæru, séu almenns eðlis og vísi ekki til þessa máls sérstaklega. Hann hafi nú látið af störfum og muni því ekki koma að framhaldi málsins undir stjórn setts ríkislögreglustjóra og sé því ekki þörf á því að taka sérstaka afstöðu til hæfis hans. Héraðsdómur hafði áður fallist á kröfu um að Jón viki sæti í skattabrotarannsókninni.

Fimm dómarar kváðu upp dóminn í Hæstarétti. Einn þeirra, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði sératkvæði og vildi hafna öllum kröfum Baugsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert