Sveik loforð sitt við Framsóknarflokkinn

Sjálfstæðisflokkurinn sveik loforð sitt við Framsóknarflokkinn með því að leggjast gegn því í stjórnarskrárnefnd að sjávarauðlindir yrðu skilgreindar sem þjóðareign í stjórnarskrá.

Þetta er mat Jóhanns Ársælssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, en hann spurði formann Framsóknarflokksins að því á Alþingi í gær hvort Framsókn gæti setið í ríkisstjórn með flokki sem hefði hunsað stjórnarsáttmálann.

Jóhann sagði eitt af kosningaloforðum Framsóknar hafa verið að sjávarauðlindir yrðu skilgreindar sem þjóðareign og að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fallist á það. Í stjórnarskrárnefnd hefðu allir flokkar verið tilbúnir að stíga þetta skref, að undanskildum Sjálfstæðisflokknum.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að sér væri ekki kunnugt um að stjórnarskrárnefnd hefði lokið störfum.

"Mér er kunnugt um að hún hafi náð áfanga með sameiginlegri niðurstöðu um nokkur atriði. Mér er ekki kunnugt um annað en að hún starfi áfram að öðrum viðfangsefnum sínum, m.a. þessu ákvæði. Starfið heldur áfram og ég treysti því að því verði ráðið til lykta."

Jóhann Ársælsson sagðist fagna því að störfum stjórnarskrárnefndar væri ekki lokið en að skilaboðin hefðu virst önnur. "Menn skulu muna eftir því að stjórnarsáttmálinn gildir einungis um þetta kjörtímabil og loforðið um að þetta komi fram hlýtur því að þurfa að koma fram á þessu vori."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert