Vel útbúinn draugabær til sölu

Bandaríska varnarliðið er horfið á braut frá Keflavíkurflugvelli og standa nú þær fasteignir auðar. Það kostar tugi milljóna að reka þennan draugabæ í einn mánuð og nú er hafin vinna við að koma þessu húsnæði í verð og vinna úr þeim ríflega hundrað hugmyndum sem hafa borist inn á borð hjá nýstofnuðu Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar.

Á þessari herstöð er að finna góðan húsakost með um það bil þrjú hundruð byggingar af ýmsu tagi, þar af eru um eitt hundrað íbúðarblokkir með bæði einstaklings og þriggja herbergja íbúðum. Magnús Gunnarsson formaður stjórnar Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar sagði að vatnsskemmdirnar sem urðu í fyrsta kuldakastinu síðast liðið haust hefðu ekki haft áhrif á nema lítið brot af þeim húsakosti sem þarna er að finna.

Flestallar byggingarnar eru í mjög góðu ástandi og þar kennir ýmissa grasa, meðal annars sjúkrahús, tveir skólar, fullkomið íþróttahús og 25 metra innisundlaug kvikmyndahús, vörugeymslur, bifreiðaverkstæði, sandblásturs- og fullkominn sprautuklefi fyrir utan gríðarlega stór flugskýli og ýmsar sérhæfðar byggingar til dæmis sprengjuheld fjarskiptamiðstöð, traustbyggður banki og lítið iðnaðarhverfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert