Ekki eðlilegt að gefa yfirlýsingu um Suðurlandsveg strax

Suðurlandsvegur við Litlu kaffistofuna.
Suðurlandsvegur við Litlu kaffistofuna.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sagði á Alþingi í dag, að hann teldi ekki eðlilegt að gefa yfirlýsingar um endurbyggingu Suðurlandsvegar áður en þingsályktunartillaga um samgönguáætlun yrði lögð fram á þinginu. Sturla sagði einnig, að framkvæmdir við Suðurlandsveg væru háðar fjárframlögum á Alþingi þótt ósk stjórnvalda væri að ljúka mætti þeim á sem skemmstum tíma.

Verið var að ræða um fyrirspurn frá Björgvin G. Sigurðssyni, þingmanni Samfylkingar, sem vildi vita hvort ráðherra hyggist leggja til að Suðurlandsvegur frá Reykjavík til Selfoss verði tvöfaldaður á næstu fjórum árum og hvenær ráðherra áætlaði, að tvöföldun Suðurlandsvegar frá Reykjavík til Selfoss verði að fullu lokið.

Sturla sagði, að virða ætti sér það til vorkunnar að hann færi ekki að fjalla í smáatriðum um samgönguáætlun áður en stjórnarflokkarnir væru búnir að fjalla um hana.

Björgvin sagðist hins vegar ekki fella sig við, að ekki væri hægt að ræða samgöngumál þótt samgönguáætlun væri komin fram og ítrekaði spurningar sínar. Sturla sagði, að unnið væri á grundvelli samgönguáætlunar og á grundvelli fjárlaga. Því væri ekki hægt að krefjast svara um hönnun vega eða hvenær ætti að ljúka tilteknu verki, þegar þau væru ekki komin á samgönguáætlun. Tilgangurinn með fyrirspurninni væri því að slá pólitískar keilur.

Sturla sagði að það væri einarður vilji sinn að byggja þennan veg upp eins fljótt og hægt er og því sagðist hann ekki skilja hvers vegna Samfylkingarmenn væru að reyna að gera málið tortryggilegt og gefa til kynna að samgönguráðherrann væri einhver þröskuldur í því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert