Fjórða þyrlan sem Landhelgisgæslan hefur til afnota, TF-EIR kom til landsins í dag. Þyrlan er frönsk, af gerðinni Dauphin AS 365N2 og er svipuð þyrla og TF-SIF. Önnur leiguþyrla landhelgisgæslunnar með einkennisstafina LN-OBX sem hefur fengið viðurnefnið Steinríkur (Obelix) fór til Hornafjarðar til móts við nýju þyrluna.
Með í þeirri för var forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Lárusson en Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tók á móti TF-EIR er hún kom til Reykjavíkur klukkan fjögur.
Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri flaug þyrlunni heim frá London og var hann afskaplega ánægður með þessa vél og sagði að hún væri ekki síðri en TF-SIF.