Gefur kost á sér til embættis ritara Frjálslynda flokksins

Hanna Þrúður Þórðardóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis ritara Frjálslynda flokksins á landsþingi flokksins, sem haldið verður helgina 26.-27. janúar nk.

Hanna Þrúður er fædd í Reykjavík en er nú búsett á Sauðárkróki. Sambýlismaður hennar er Guðmundur Guðmundsson, sjómaður og eiga þau tvö börn. Hanna bauð sig fram á lista Frjálslynda flokksins í síðustu sveitastjórnarkosningum ásamt því að vera framkvæmdastjóri framboðsins í Skagafirði. Síðustu fjögur ár hefur hún rekið Gistiheimilið Kotið á Sauðárkróki samhliða uppeldi barna sinna.

„Mín skoðun er sú að öflugt atvinnulíf sé undirstaða samfélagsins og sé raunar forsenda menntaðs velferðarsamfélags.

Frjálslyndi flokkurinn er í mikilli sókn og þar eru margir góðir menn og konur sem vinna að málum sem varða hag allra landsmanna. Má þar nefna sjávarútvegsmál og önnur atvinnumálin ásamt landsbyggðarmálum. Ég tel að þrátt fyrir ungan aldur geti ég lagt ýmislegt gott til mála. Mínar aðaláherslur eru einkum varða ferðaþjónustu og málefni aldraðra, sem raunar má samþætta,” segir hún í tilkynningu.

„Nú hef ég ákveðið að gera hlé á rekstri fyrirtækisins til að setjast á skólabekk til að afla mér frekari menntunar ásamt því að helga krafta mína Frjálslynda flokknum, sem ég tel vera besta kostinn fyrir þjóðina til að losna úr viðjum sérhagsmuna og þröngsýni.

Frjálslyndi flokkurinn hefur brýnu hlutverki að gegna og er vaxandi, verði mér treyst mun ég helga mig innri uppbyggingu flokksins.

Ég veit að forysta flokksins hafi staðið sig vel og það er brýnt fyrir flokkinn og þjóðina að hún sé og verði samheldin, því heiti ég að vinna að,“ segir hún ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert