Íbúakosning í Hafnarfirði 31. mars

Álver Alcan í Straumsvík
Álver Alcan í Straumsvík mbl.is/Árni Sæberg

Allt útlit er fyrir að íbúakosning um deiliskipulag á Alcan-svæðinu í Hafnarfirði fari fram þann 31. mars næstkomandi en bæjarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tillögu um það í gær að atkvæðagreiðslan fari fram þann dag. Í tillögu þeirra er einnig lagt til að niðurstaða kosninganna verði bindandi og muni því ráða því hvort fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga verði formlega sett í auglýsingu samkvæmt skipulags- og byggingalögum.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað en í tillögunni er gert ráð fyrir, að kjörstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar verði falið að hefja undirbúning að skipulagi og framkvæmd kosninga í samræmi við gildandi lög og samþykktar málsmeðferðarreglur bæjastjórnar.

Þá er lagt til, að bæjarstjóra verði falið að ganga til samninga við óháðan aðila um ráðgjöf við undirbúning, kynningu, framkvæmd og form spurningar til að tryggja faglega, upplýsta og hlutlausa kynningu á öllum gögnum málsins.

Þá er lagt til að leitað verði umsagnar hagsmunaaðila áður en orðalag spurningar á kjörseðli verður formlega samþykkt í bæjarstjórn, sem þó skuli ekki verða síðar en á bæjarstjórnarfundi 13. febrúar n.k..

Jafnframt er lagt til, að bæjarstjórn heimili bæjarráði að styrkja samtök/lögaðila, sem leita eftir fjárhagslegum stuðningi vegna kynningar á sjónarmiðum og viðhorfum í tengslum við kosningarnar. Í því sambandi verði miðað við þær styrktargreiðslur sem veittar hafa verið í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert