Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, lagði fram fyrirspurn til dóms- og kirkjumálaráðherra, Björns Bjarnasonar um umfang og eðli og tímasetningar á öryggis- eða leyniþjónustustarfsemi hjá lögreglu og fleiri aðilum á Íslandi á Alþingi í dag.
Steingrímur vísaði í fyrirspurn sinni til 54 gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir að heimilt er alþingismönnum, með leyfi Alþingis, að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni með því að bera fram fyrirspurn um málið eða beiðast um það skýrslu. Vildi Steingrímur fá svör um hvenær leyniþjónustustarfsemi hjá lögreglu sem hófst um miðja síðustu öld lauk og hvert var umfang hennar?
Björn Bjarnason sagði að hann geti ekki svarað einhverju til sem hann veit ekki. Að sögn Björns byggir fyrirspurn Steingríms á grein sem birtist eftir Þór Whithead í tímaritinu Þjóðmálum en þar er því meðal annars lýst hvernig starfsemin öryggisþjónustunnar þróaðist en vafalaust hefur hún ekki verið mikil, að sögn Björns.
Segist Björn vonast til þess að svonefnd kaldastríðsnefnd, sem Pál Hreinsson stýrir, muni geta svarað þessum spurningum Steingríms þar sem hann hafi ekki þekkingu til þess að svara fyrirspurninni.
Steingrímur sagðist gera kröfu um að dómsmálaráðherra útvegi þessar upplýsingar enda ef þær séu til þá er þær að finna í stofnunum á vegum ráðuneytisins, að sögn Steingríms. Segir hann að ráðherrar eigi að afla þeirra upplýsinga sem þeir eru beðnir um í fyrirspurnartíma á Alþingi. Sagðist Steingrímur mótmæla því stjórnarskrárvarinn réttur hans sem alþingismanns sé lítilsvirtur með þessum hætti.
Svaraði Björn því til að stjórnarskráin krefðist þess ekki af mönnum að þeir svari spurningum sem þeir viti ekki svarið við.