Bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Lúðvík Geirsson, kynnti á fundi með blaðamönnum í dag hugmyndir að deiliskipulagi fyrir nýtt athafnasvæði álversins í Straumsvík vegna stækkunar þess í allt að 460 þúsund tonna álframleiðslu á ári. Kemur þar fram að svonefnt þynningarsvæði, sem er það svæði umhverfis álverið þar sem þynning mengunar á sér stað, verður einungis þriðjungur þess sem tilgreint er í gildandi starfsleyfi.
Deiliskipulagssvæðið nær yfir eignarlóð Alcan sem afmarkast af suðurmörkum eldri lóðar álversins og strandlengjunnar í norðri, Kapelluhrauni í suðri, Hellnahrauni í austri og eignarlandi Alcan í vestri. Stærð skipulagssvæðis er um 52 hektarar.
Meðal þess sem kemur fram í tillögu Alcan er að nýtt starfsleyfi fyrir álver Alcan í Straumsvík sem gefið var út 7. nóvember 2005 af Umhverfisstofnun heimili Alcan að framleiða allt að 460 þúsund tonn af áli á ári. „Loftgæði m.t.t. heilsu fólks verða uppfyllt allstaðar utan lóðamarka álversins í Straumsvík. Stærð þynningarsvæðis ákvarðast hinsvegar af umhverfismörkum brennisteinsdíoxíðs m.t.t. gróðurverndar. Samkvæmt gildandi starfsleyfi er stærð þynningarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995 til 2015. Í lok árs 2006 fól Alcan á Íslandi hf. verkfræðistofunni Vatnaskil hf. að endurreikna dreifispár fyrir útblástur flúors, brennisteinstvíoxíð og svifryks m.v. nýjustu forsendur stækkunar. Á grundvelli þessara útreikninga leggur Alcan til að þynningarsvæðið taki mið af nýrri dreifispá fyrir brennisteinsdíoxíð og verði minnkað. Samkvæmt tillögunni verður þynningarsvæðið einungis um þriðjungur þess sem tilgreint er í gildandi starfsleyfi," segir í tillögu að deiliskipulagi fyrir stækkun álversins.