Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að ljóst sé að afnám heimildar til verðtryggingar lánssamninga gæti verið afar flókið í framkvæmd. Stærsta vandamálið væri líklega það, að tugir þúsunda verðtryggra lánssamninga eru í gildi og verða áfram í hálfan fimmta áratug. Því myndi afnám heimildar til verðtryggingar aðeins eiga við um ný lán og því yrði tvöfalt lánakerfi í gildi næstu áratugi.
Þá sagði Jón í fljótu bragði ljóst, að vaxtabyrði lántakenda myndi þyngjast og væntanlega myndi lánstími styttast verulega og hætt yrði að bjóða fasta vexti. Einnig mætti búast við, að lán í erlendri mynt aukist. Sagði Jón, að því væri erfitt að koma auga á, að það myndi efla hag lántakenda í langvarandi þensluástandi að afnema verðtryggingu.