Í dag verður birt niðurstaða í máli ákæruvaldsins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Kristínu Jóhannesdóttur, Stefáni Hilmari Hilmarssyni og Önnu Þórðardóttur í Hæstarétti vegna sex ákæruliða af þeim 40 sem upphaflega ákæran í Baugsmálinu svonefnda tók til.
Ákæruatriðin lúta annars vegar að meintum lögbrotum við gerð ársreikninga Baugs á árunum 1998–2001 og hins vegar við innflutning á tveimur bílum til landsins á árunum 1999 og 2000.
Hæstiréttur vísaði frá dómi 32 af 40 ákæruliðum í Baugsmálinu. Þeir átta ákæruliðir sem eftir stóðu fóru hins vegar fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem sýknaði alla ákærðu í þeim hluta málsins með dómi sínum 15. mars 2006. Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í málinu, ákvað að una sýknu Jóhannesar Jónssonar og Tryggva Jónssonar en áfrýjaði sex ákæruliðum til Hæstaréttar.
Annars vegar er um að ræða ákæruliði 33–36, en í þeim eru Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs og endurskoðendurnir Stefán H. Hilmarsson og Anna Þórðardóttir sökuð um brot á lögum um ársreikninga og almennum hegningarlögum. Er Jón Ásgeir sakaður um að hafa látið hjá líða að geta um fjárhæð lána til stjórnarmanna, stjórnenda, hluthafa eða aðila þeim tengdum í skýringum með ársreikningum Baugs fyrir árin 1998–2001. Stefáni og Önnu er gefið að sök að hafa áritað án fyrirvara ársreikninga áranna 2000 og 2001, án viðeigandi skýringa og Stefáni er einum gefið að sök að hafa áritað reikninga fyrir árin 1998 og 1999.
Hins vegar er um að ræða ákæruliði 38 og 40, en í þeim fyrri er Jón Ásgeir sakaður um að hafa gefið rangar upplýsingar á tollskýrslu um verð bifreiðar og í seinni liðnum er systir hans, Kristín Jóhannesdóttir, sökuð um sams konar brot við innflutning á annarri bifreið. Báðir bílarnir voru keyptir í gegnum fyrirtæki Jóns Geralds Sullenberger, Nordica.
Ný ákæra var gefin út í stað þeirra ákæruliða, sem héraðsdómur og síðan Hæstiréttur vísuðu frá. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð í því máli hefjist í Héraðsdómi Reykjavíkur síðari hluta febrúar.