Allar framkvæmdir við nýtt Álfa-, trölla og norðurljósasafn á Stokkseyri hafa verið unnar án tilskilins byggingarleyfis frá bæjaryfirvöldum í Árborg. Í Sunnlenska fréttablaðinu kemur fram að skipulags- og byggingarfulltrúi bæjarins segir aðstandendur safnsins hafa skilað öllum tilskildum gögnum en ekki hafi verið hægt að afgreiða formlegt leyfi þar sem slökkviliðsstjóri hafi enn ekki gefið umsögn varðandi framkvæmdirnar, þrátt fyrir ítrekaða ósk þar um.
„Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur því umræddar teikningar komu fyrst til okkar í dag [þriðjudag],” segir Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu en hann vill ekki að öðru leyti tjá sig um málið.
Framkvæmdir við safnið hófust snemma á síðasta ári og standa þær enn yfir. Áformað er að opna safnið um mánaðamótin febrúar-mars en safnið verður til húsa í 1200 fermetra rými á annarri hæð húsnæðisins sem hýsir Draugasetrið.
Bárður Guðmundsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Árborgar, segir bæjaryfirvöld fyrst hafa óskað eftir umsögn slökkviliðsstjóra 16. maí í fyrra og sú ósk hafi síðar verið ítrekuð.
Benedikt G. Guðmundsson, einn aðstandenda Álfa- trölla og norðurljósasafnsins, sagðist koma af fjöllum þegar Sunnlenska bar fréttina undir hann. „Við vitum ekki betur en að við höfum farið að öllum settum leikreglum hvað þetta varðar og við höfum ekki fengið neina meldingu sem bendir til annars,” segir Benedikt.