Hveralyktin sem skynugir höfuðborgarbúar telja sig hafa fundið í haust og í vetur er engin ímyndun heldur er um að ræða alvöru hveralykt frá borholum Hellisheiðarvirkjunar.
Nánar tiltekið er lyktin af brennisteinsvetni sem berst út í andrúmsloftið með heitri gufunni og þótt brennisteinsvetnið sé í svo litlu magni að það er algjörlega hættulaust verður þess greinilega vart á mælitæki sem umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefur yfir að ráða.
Mælitækið var keypt sl. vetur, einmitt í þeim tilgangi að kanna áhrif Hellisheiðarvirkjunar á loftgæði í borginni. Mælingar hófust í mars og segir Anna Rósa Böðvarsdóttir heilbrigðisfulltrúi að styrkur brennisteinsvetnis á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist mjög þegar borholur virkjunarinnar voru látnar blása í haust.
Hún bætti því við að það væri afar misjafnt hvort fólk yrði yfirleitt vart við lyktina og sjálfsagt væru margir orðnir vanir að finna sömu eða svipaða lykt af heita vatninu sem þeir baða sig í.
Til þess að vetnið yrði hættulegt yrði styrkur þess að aukast 5.000-falt miðað við styrk þess þegar lykt finnst í lofti.
Hveralyktin frá Hellisheiðarvirkjun finnst þegar austanáttir, helst hæglátar, hafa verið ríkjandi og gera má ráð fyrir að meira kveði að henni í efri hverfum borgarinnar en þeim sem standa nær sjó. Ein eða tvær kvartanir hafa borist.