Nýr sauðfjársamningur undirritaður

Tekist í hendur eftir undirritun samningsins.
Tekist í hendur eftir undirritun samningsins. mbl.is/Sverrir

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, og Jóhannes Sigfússon, formaður Landssambands sauðfjárbænda, skrifuðu í dag undir nýjan samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar til ársins 2014.

Samkvæmt samningnum verður 16,4 milljörðum króna varið úr ríkissjóði á samningstímabilinu til að bæta starfsskilyrði sauðfjárræktar. Framlög ríkisins hækka um 300 milljónir og nema þannig 3348 milljónum á fyrsta ári samningsins. Framlögin lækka síðan í áföngum á samningstímanum um nær 1% á ári að raunvirði.

Markmið samningsins eru samkvæmt tilkynningu frá landbúnaðarráðuneytinu:

  • Að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda
  • Að stuðla að nýliðun í hópi sauðfjárbænda og styrkja búsetu í dreifbýli
  • Að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu
  • Að örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar
  • Að stuðla að framþróun í sauðfjárrækt

Samningurinn er nokkuð einfaldaður frá núgildandi samningi. Greiðsluleiðum til bænda er fækkað, jöfnunargreiðslum er breytt í beingreiðslur auk þess að undanþága frá útflutningsskyldu er felld niður í áföngum. Útflutningsskylda fellur svo niður frá og með framleiðsluárinu 2009.

Nýmæli í samningnum er sérstakt ákvæði um veitingu fjármuna til að efla nýliðun í stétt sauðfjárbænda. Framlög til gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu eru aukin og verða hærra hlutfall af greiðslum til bænda af samningsfé en samkvæmt núgildandi samningi. Þá eiga bændur, sem eru orðnir 64 ára, kost á að gera samning um búskaparlok án þess að tapa rétti til beingreiðslna. Greiðslur vegna ullarframleiðslu eru óbreyttar og ákvæði um aðilaskipti að greiðslumarki eru óbreytt.

Samingurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki nauðsynlegra lagaheimilda Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka