Hæstiréttur staðfesti í dag dómsorð Héraðsdóms í þeim sex ákæruliðum sem ákæruvaldið hafði áfrýjað í hinu svonefnda Baugsmáli. Þar með voru fjórir sakborningar sýknaðir annars vegar af ákærum um meint lögbrotum við gerð ársreikninga Baugs á árunum 1998–2001 og hins vegar við innflutning á tveimur bílum til landsins á árunum 1999 og 2000.
Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs Group sagðist að vonum vera ánægður með niðurstöðu Hæstaréttar og sagði ekki sjá betur en að með dómi Hæstaréttar hafi verið fallist á þá greiningu á hugtakinu „láni" sem verjendur hafa haldið fram í málinu.
„Málinu hefði ekki verið áfrýjað nema af því að ákæruvaldið taldi að það þyrfti að láta reyna á hvort þessi niðurstaða stæðist. Niðurstaðan stendur en þá á eftir að meta hvort forsendurnar hafi allar staðist," sagði Sigurður Tómas Magnússon, sérstakur saksóknari í málinu.