Sólardagur á Ísafirði í dag

Í dag er hinn eiginlegi sólardagur á Ísafirði, en í meira en 100 ár hafa Ísfirðingar fagnað komu sólar með því að drekka sólarkaffi og pönnukökur. Sólardagur er miðaður við þann dag er sól sleikir Sólgötu við Eyrartún, ef veður leyfir, eftir langa vetursetu handan fjalla.

Gamli Eyrarbærinn sem stóð á Eyrartúni er löngu horfinn en miðað var við daginn þegar sólin skein þar á glugga í fyrsta sinn eftir meira en tveggja mánaða fjarveru.

Enda þótt Eyrarbærinn sé horfinn á vit þeirra sem í honum bjuggu, þá munu ýmsir hafa enn í heiðri þann sið, að bjóða upp á sólarkaffi og rjómapönnukökur þann dag þegar sólin skín í fyrsta sinn á ný á stofugluggann heima hjá þeim. Það er auðvitað mjög misjafnt og fer bæði eftir því hvar í bænum fólk býr og eins eftir skýjafari.

Frekar skýjað er í Skutulsfirði í dag, en þó ekki alskýjað og eyður í skýjabökkum ofan við Engidal, en þaðan má búast við fyrstu sólargeislunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert