Fjórir innbrotsþjófar voru bókstaflega teknir í bólinu í sumarbústað við Eyrarvatn í Svínadal í gær. Komið var að þeim sofandi í bústaðnum sem þeir höfðu brotist inn í, og voru þeir með nokkuð af þýfi og fíkniefnum í fórum sínum er þeir voru handteknir.
Lögreglan í Borgarnesi segir að athugull lögreglumaður frá Selfossi, sem var á frívakt og staddur í sumarbústaðahverfi við Eyrarvatn, hafi uppgötvað um hádegisbil í gær að brotist hefði verið inn í bústað í hverfinu og að líklega væru þjófarnir enn þar innandyra.
Hann hafði strax samband við kollega sína og sendir voru lögreglubílar frá Akranesi og Borgarnesi á vettvang. Þarna var skjótt og hárrétt brugðist við, segir Theodór Þórðarson, yfirlögregluþjónn í Borgarnesi.
Fólkið sem var handtekið er á aldrinum 18 til 32 ára og er grunað um að hafa verið á ferðinni á þessum slóðum áður og einnig í Árnessýslu.