Vakið hefur athygli að allir gestir og nemendur Háskóla Íslands sem fram koma á lokahófi Rannsóknardaga Stúdentaráðs sem fram fer í dag eru karlmenn en fjórir nemendur kynna þar verkefni sem þeir vinna að auk þess sem iðnaðarráðherra og tveir gestir út atvinnulífinu og tveir fulltrúar Stúdentaráðs flytja erindi á lokahófinu.
Reynir Jóhannesson, framkvæmdastjóri Rannsóknardaga, segir þá kynjaskiptingu sem fram komi á boðskorti í lokahófið ekki vera lýsandi fyrir kynjaskiptingu þátttakenda og fyrirlesara á Rannsóknardögunum sem staðið hafi í tvo daga. Þá segir hann að tilviljanir hafi ráðið því að dagskráin raðaðist svona upp. Þannig hafi til dæmis bæði Kristínu Ingólfsdóttur Háskólarektor og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra verið boðið að koma þar fram en hvorug þeirra hafi haft tök á því.