Yfir 250 manns sátu stofnfund Landssamtaka landeigenda á Íslandi

Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps og formaður Landssamtaka landeigenda á Íslandi, …
Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps og formaður Landssamtaka landeigenda á Íslandi, sést hér setja fundinn í dag. mbl.is/G.Rúnar

Rúmlega 250 manns sátu stofnfund Landssamtaka landeigenda á Íslandi sem lauk nú fyrir stundu. Þar var samþykkt ályktun hljóðar á þá leið að þjóðlendulögunum verði breytt strax á þá leið að jörð með athugasemdalausu þinglýstu landamerkjabréfi verði eignarland. Auk þess að afréttir verði ekki gerðar að þjóðlendum. Guðný Sverrisdóttir, sveitastjóri Grýtubakkahrepps, var kjörin formaður samtakanna.

Guðný sagði, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að stjórnin muni hittast í næstu viku og að stefnt sé að því að fá fund með forsvarsmönnum ríkisvaldsins og fjármálaráðherra. „Ég vil trúa því að hann (Árni Mathiesen fjármálaráðherra), muni koma til með að skilja þetta mál,“ segir Guðný og bætir því við að hún sé bjartsýn á framhaldið. „Ég hef alveg trú á því að þetta sé leikur sem við vinnum.“

Guðný segir að það sé ljóst að þetta muni verða kosningamál í vor. „Kannski var það byrjunin á þessu að það var utandagsskrárumræða um þetta á Alþingi í dag. [...] Ég fullyrði það að hún hefði ekki orðið ef að það væri ekki verið að stofna þessi samtök,“ sagði Guðný.

Aðalstjórn samtakanna skipa þau Guðný Sverrisdóttir, sem er jafnframt formaður sem fyrr segir, Ólafur H. Jónsson, Reykjavík, Örn Bergsson, Jóhannes Kristjánsson og Gunnar Sæmundsson.

Varastjórn skipa þau Jóhannes Sigfússon, Hrafnkell Karlsson, Aðalsteinn Jónsson, Anna Guðrún Edvardsdóttir og Rögnvaldur Ólafsson.

Kjörnir skoðunarmenn eru þeir Guðmundur Malmquist og Eiríkur Blöndal.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á stofnfundinum:

„Stofnfundur Landssamtaka landeigenda á Íslandi, í Sunnusal Hótels Sögu 25. janúar 2007, skorar á ríkisstjórn og Alþingi að beita sér fyrir því að lögum um þjóðlendur nr. 58/1998 verði breytt þegar í stað á þann veg að land, sem samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi og/eða heimildarskjali, þar á meðal fyrirvaralausu eignarafsali frá ríkinu, tilheyrir tiltekinni jörð, jörðum, upprekstrarfélagi, fjallskiladeild, sveitarfélagi eða annars konar lögpersónu, skuli teljast eignarland. Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.

Fundurinn mótmælir harðlega túlkun og framkvæmd þjóðlendulaganna af hálfu ríkisvaldsins enda er þar gengið gegn þeim skilningi sem lagður var í tilgang laganna á Alþingi og utan þess á sínum tíma. Má þar nefna að ríkið gerir kröfur langt út fyrir miðhálendi landsins, jafnvel allt í sjó fram, þrátt fyrir yfirlýstan tilgang laganna um að einungis ætti að ákveða mörk eignarlanda og þjóðlendna á miðhálendinu. Þessar kröfur eiga sér enga stoð, hvorki í þjóðlendulögunum sjálfum né í greinargerð frumvarps til þeirra laga. Þar er hvergi að finna stafkrók um að markmið ríkisins sé að sölsa undir sig þinglýst eignarlönd eða yfirleitt að ná undir ríkið sem mestu landi. Alþingismenn og ýmis hagsmunasamtök, sem fjölluðu um málið, gengu út frá að markmið lagasetningarinnar væri að gera mörk á hálendisjaðri skýrari.

Eignarrétturinn er stjórnarskrárbundinn og friðhelgur. Gegn þessum rétti er freklega gengið með ólöglegum kröfum ríkisvaldsins. Landeigendur munu verjast með öllum lögmætum ráðum, meðal annars fyrir dómstólum hérlendis og Mannréttindadómstóli Evrópu í framhaldinu, ef þörf krefur.

Framundan eru kosningar til Alþingis. Fundurinn skorar á landeigendur að halda málstað sínum hátt á lofti um allt land og krefja stjórnmálamenn um afstöðu og viðhorf til landakrafna ríkisins við hvert tækifæri sem gefst í kosningabaráttunni. Markmiðið hlýtur að vera að Alþingi breyti þjóðlendulögunum þegar í stað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert