Lögreglan á Suðurnesjum handtók tvítugan karlmann, sem reyndi að stinga lögreglumenn af. Maðurinn mældist á 199 km hraða á klukkustund þar sem hann ók fólksbifreið vestur Reykjanesbrautina á Strandheiði um kl. 16:30 í dag.
Að sögn lögreglu sinnti ökumaðurinn ekki stöðvunarmerkjum og reyndi að komast undan lögreglu meðal annars með því að aka ítrekað á ofsahraða hægra megin fram úr bifreiðum. Hann var handtekinn skömmu síðar þegar lögreglumenn fundu hann við akstur í Vogum.
Ökumaðurinn, sem er fæddur árið 1987, var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða að lokinni skýrslutöku. Hann hefur níu sinnum áður verið kærður fyrir of hraðan akstur.
Annars voru sjö aðrir ökumenn kærðir fyrir hraðakstur í embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum þar af tveir á Reykjanesbrautinni sem mældust á 132 og 129 km hraða. Þá voru 4 ökumenn kærðir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu.