Hafrannsóknastofnuninni bars nýlega tilkynning um sérstæðan hvalreka fyrir botni Lónafjarðar í Þistilfirði. Um er að ræða náhval sem er hánorræn tegund tannhvala. Hafrannsóknastofnuninni er ekki kunnugt um að náhval hafi rekið á fjörur Íslands síðan 1976, þegar eitt eða tvö dýr rak á land í Geldinganesi í Reykjavík.
Náhvalur hefur aldrei sést í víðtækum hvalatalningum Hafrannsóknastofnunarinnar á tímabilinu 1987-2001.
Á heimasíðu stofnunarinnar segir, að náhvalsrekar virðist hafa verið heldur tíðari fyrr á árum og nefni Bjarni Sæmundsson, í bók sinni Spendýrin frá 1932, níu slík dæmi á tímabilinu 1800-1924, öll frá Norðurlandi og Vestfjörðum og flest að vorlagi.
Náhvalur er annar tveggja tegunda af ætt hvíthvala. Vísindaheitið þýðir hvalurinn með eina tönn og eitt horn og er þar vísað til helsta einkennis tegundarinnar sem er geysistór framtönn er skagar allt að 2,7 metra fram úr höfðinu á fullvöxnum törfum. Skögultönn þessi vex vinstra megin fram úr efri góm gegnum kjálkann og snýst í spíral til vinstri.
Útbreiðsla náhvals er að mestu bundin við Atlantshafshluta Norður-Íshafsins. Suðurmörk útbreiðslunnar liggja um Hudsonsund í Norður Kanada, um Diskóflóa á Vestur Grænlandi, meðfram austurströnd Grænlands og austur að Svalbarða. Tegundin hefur fundist í litlum mæli meðfram norðurströnd Rússlands.
Nafn náhvalsins á íslensku og öðrum norrænum málum er talið dregið af líkindum dröfnóttrar húðarinnar við sjórekið lík.
Heimasíða Hafrannsóknastofnunar