Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að skatttekjur af fjármagnstekjum hafi aukist gríðarlega og nemi 1,6% af landsframleiðslu og nálgast 20 milljarða króna.
Vilhjálmur segir á heimasíðu SA, að samanlagt hafi tekjuaukningin vegna fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts fyrirtækja numið um 3,5% af landsframleiðslu eða í kringum 40 milljörðum króna. Það þýði yfir 130 þúsund krónur á hvert mannsbarn í landinu.
„Þessi mikla tekjuaukning er forsenda þess að unnt hefur verið að lækka og jafnvel fella niður aðra skatta á síðustu misserum. Nægir að nefna niðurfellingu eignarskatts, lækkun tekjuskatts einstaklinga og lækkun virðisaukaskatts. Allt hefur þetta komið sér vel fyrir heimilin í landinu," segir Vilhjálmur.
Hann segir, að skynsamlegasta þróunin í skattamálum sé sú, að nýta enn betur möguleika til tekjuaukningar af fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti fyrirtækja með hóflegum skatthlutföllum og að halda áfram að lækka tekjuskatt einstaklinga eða aðra skatta sem almenningur ber. Lækkun á skatthlutfalli tekjuskatts fyrirtækja, jafnvel allt niður í 12%, myndi hafa þessi áhrif og gefa færi á frekari lækkun á tekjuskatti einstaklinga.