Ný sæti og afþreyingarkerfi fyrir hvern flugfarþega verða brátt í öllum Boeing 757-þotum Icelandair. Með þessu segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair og Icelandair Group, að flugfélagið ætli að vera í hæsta gæðaflokki hvað varðar þjónustu um borð og upplifun farþega. Það verði jafnframt áfram í fararbroddi í hagstæðum flugfargjöldum.
Á baki flugsætanna verða skjáir með skemmtikerfi sem farþegar fyrir aftan geta nýtt sér eftir eigin höfði. Til dæmis segir Jón Karl að menn sjái fyrir sér að hver farþegi hafi aðgang að fjölda nýrra kvikmynda, sjónvarpsþátta og tölvuleikja, tónlist og bókum og öðru lesefni. Þá geti farþegar fylgst með fluginu sjálfu meðan á því standi. Hann segir tæknina að auki bjóða upp á að farþegar geti keypt tónlist og aðra stafræna vöru. Umtalsverðir tekjumöguleikar fyrir félagið liggi í slíkri sölu og muni tækin m.a. geta tekið greiðslukort.
Nýju sætin munu svo veita farþegum aukin þægindi og svigrúm.
Nánar er fjallað um þetta í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.