Drógu fram naglamottur

Lögreglumenn við flutningabílinn eftir að þeim tókst að stöðva hann.
Lögreglumenn við flutningabílinn eftir að þeim tókst að stöðva hann. mbl.is/Jón Svavarsson
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var komin á fremsta hlunn með að beita mjög alvarlegu þvingunarúrræði gegn bílþjófnum sem ók um borgina á ofsahraða á fimmtudagskvöld á dráttarbíl.

Að sögn Geirs Jóns Þórissonar yfirlögregluþjóns ætlaði lögreglan að beita naglamottum sem átti að leggja fyrir bílinn til að sprengja dekkin á honum og stöðva förina. Bílstjórinn gafst hins vegar upp rétt áður en ákvörðun var tekin um að leggja motturnar fyrir bílinn. Lögreglan hefur átt motturnar í nokkur ár en aldrei þurft að beita þeim.

Mikil hætta skapaðist vegna ofsaakstursins og tóku 12 lögreglumenn þátt í aðgerðum sem miðuðu fyrst og fremst að því að tryggja öryggi vegfarenda og stöðva síðan bílinn. Lögreglan reiknaði með þeim möguleika að aðgerðirnar gætu endað með slysi en hafði það að leiðarljósi að lágmarka hugsanleg slys.

Þjálfaðir til að aka utan í bíla

Lögreglumenn hafa áður þurft að grípa til alvarlegra aðgerða gegn ökuníðingum og laska lögreglubíla til að stöðva ökumenn sem láta sér ekki segjast. Búa lögreglumenn yfir sérstakri þjálfun í að aka utan í flóttabíla með því að stefna á ákveðið horn bílanna og gera þá þannig óvirka en slík aðgerð nefnist neyðarstöðvun. Slíkar aðgerðir eru að hluta kenndar í Lögregluskóla ríkisins og einnig hjá lögreglunni. Þessi aðferð hefði þó verið illmöguleg á fimmtudagskvöldið vegna stærðarmunar flutningabílsins og lögreglubílanna. Þótt ekki hafi hlotist af slys þá um kvöldið munaði ekki miklu þegar dráttarbíllinn æddi yfir gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Þar tókst ekki að tryggja gatnamótin í tæka tíð með lögregluverði, heldur ók lögreglubíll á undan bílnum með forgangsljósum og sírenum til að aðvara vegfarendur. Þar lét nærri að flóttabíllinn hefði ekið á aðvífandi bíl. Á næstu gatnamótum, við Arnarneshæð og aftur við Vífilsstaðaveg, var kominn lögregluvörður og lauk eftirförinni þar.

"Lögregluna grunaði að bíllinn færi Reykjanesbrautina og þar var lögreglubíll sendur á undan með blá blikkandi ljós og sírenur til að aðvara fólk," segir Geir Jón. "Þar var því bjargað sem bjargað varð og því urðu engin slys."

Bílnum var ekið um Reykjavík, Kópavog og Garðabæ, sem áður voru aðskilin lögregluembætti, og segir Geir Jón engan vafa leika á því að sameining þessara lögregluembætta hafi gert sitt gagn í aðstæðunum, þótt hann bendi á að sameiginlegt fjarskiptakerfi lögreglunnar milli embætta hafi áður verið komið í gagnið. "En stjórnunin á verkefninu varð sannarlega til þess að einungis var unnið samkvæmt einu verkferli hjá nýja embættinu. Það skipti sköpum."

Eins og fram hefur komið voru það lögreglumenn í eftirlitsferð sem fyrst sáu bílinn og kölluðu eftir aðstoð þegar ökumaðurinn hlýddi ekki fyrstu skipunum. Geir Jón bendir á að stjórnandi í jafnalvarlegu verkefni og því sem hér um ræðir þurfi einkum að huga að því hvert ætla megi að bílnum verði ekið, og hvort hindra þurfi för inn á þrengri svæði.

Stjórnendur aðgerðarinnar glímdu við gífurlega tímapressu fimmtudagskvöldið með því að skipuleggja þurfti aðgerðir á meðan sjálf ógnin var til staðar og stýra þurfti lögreglubílum inn á svæðið jafnóðum og rás atburða vatt fram auk þess sem hugsa þurfti upp mögulega atburðarás um leið.

„Þetta er afar vandasamt mat en að lokinni aðgerð fara menn yfir málið og skoða hvort eitthvað hefði mátt gera öðruvísi. Lögreglan er þó svo lánsöm að hafa gott fólk í þessu verkefni og sem betur fer hafa ekki margir slasast við þessi alvarlegu atvik."

Geir Jón segir þá ökumenn sem kalla á alvarlegar aðgerðir lögreglu oft vera undir áhrifum lyfja eða vímuefna og viðbrögð slíkra ökumann við aðgerðum lögreglu sé viðkvæmur núningsflötur. Þegar svo hátti til þurfi lögreglan ávallt að meta hversu langt megi ganga á hverjum tíma og velja hárrétt augnablik til að stöðva viðkomandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert