Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is Samkeppniseftirlitið er að skoða matvörumarkaðinn hér á landi frá ýmsum hliðum, meðal annars með tilliti til mögulegrar markaðsráðandi stöðu, samninga milli birgja og smásala og fleira, samkvæmt upplýsingum Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins.
„Við erum að skoða matvörumarkaðinn frá ýmsum hliðum. Eitt af þeim atriðum sem við skoðum sérstaklega í því sambandi er smásöluverslunin og að hve miklu leyti markaðsráðandi staða sé þar fyrir hendi," sagði Páll Gunnar í samtali við Morgunblaðið.
Spurt um hækkanir undanfarið
Hann sagði að athugunin hefði hafist um mitt síðasta ár. Einnig yrði skoðað með hvaða hætti samningum milli birgja og smásölunnar væri háttað. Þá væri einnig komin af stað athugun á verðlagningu hjá birgjum og í því sambandi væri spurst fyrir hjá þeim um hækkanir að undanförnu.
Páll sagðist ekki geta sagt til um það að svo komnu hvenær niðurstöður af þessum athugunum lægju fyrir. Athugun á smásölunni væri lengra komin en athugun á birgjunum þar sem gagnaöflun stæði enn yfir og gerð yrði grein fyrir framgangi athugananna og niðurstöðum eftir því sem hægt væri.
Í hnotskurn
» Vinna Samkeppniseftirlitsins gengur m.a. út á að kanna að hve miklu leyti markaðsráðandi staða sé á smásölumarkaði.
» Samkeppniseftirlitið er einnig að skoða hvernig samningum milli birgja og smásöluverslunarinnar er háttað.