Félagsmönnum í Frjálslynda flokknum hefur fjölgað mjög á undanförnum dögum og gert er ráð fyrir að enn fleiri gangi í flokkinn í dag til að taka þátt í kosningu stjórnar og þá ekki síst vegna varaformannskjörsins. Valið stendur milli núverandi varaformanns, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, og Margrétar Sverrisdóttur sem áður var framkvæmdastjóri flokksins.
Töluverð spenna hefur verið innan Frjálslynda flokksins undanfarið og er harkan í varaformannskjörinu til marks um hana. Athygli vakti við setningu landsþingsins að Margrét Sverrisdóttir var ekki komin í sæti sitt, við háborð fundarins, þegar Guðjón hóf ræðu sína rétt fyrir auglýstan tíma. Guðjón hefur þegar lýst yfir stuðningi við Magnús og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins reyna bæði að koma „sínu fólki" í stöðu ritara en Margrét hefur gegnt því embætti sl. ár. Fimm manns hafa nú þegar gefið kost á sér í embættið: Sólborg Alda Pétursdóttir, Guðrún María Óskarsdóttir, Ásgerður Jóna Flosadóttir, Kolbrún Stefánsdóttir og Hanna Þrúður Þórðardóttir.