Læknir meiddist þegar hann reyndi að stöðva slagsmál á slysadeild

Eftir Gunnar Pál Baldvinsson gunnarpall@mbl.is
„Þetta ástand er orðið algjörlega ólíðandi – nema bara fyrir þá sem eru búnir að drekka þeim mun meira brennivín," segir Ófeigur Þorgeirsson, yfirlæknir á slysa- og bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Í fyrrinótt brutust út hópslagsmál á slysadeildinni með þeim afleiðingum að læknir sem var að störfum á deildinni tognaði á handlegg þegar hann lenti á milli manna.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu lenti fimm til sex mönnum um tvítugt saman á biðstofu slysadeildarinnar en þeir höfðu þá fyrr um nóttina slegist og valdið nokkrum meiðslum hver á öðrum og þurftu því á læknisaðstoð að halda. Lögreglumaður á vakt á deildinni reyndi að hemja ungmennin en kalla þurfti til liðsauka til að stöðva handalögmálin. Starfsmenn slysadeildar héldu sig til hlés en læknir sem var staddur á biðstofunni lenti inni í átökunum og tognaði á handlegg í atganginum. Voru fjórir þeirra sem verst létu færðir á lögreglustöð og látnir gista fangageymslur.

Ófeigur segir að það sé sjaldgæft að starfsfólk slysadeildarinnar verði sjálft fyrir líkamlegu ofbeldi sem þessu en það verði þó iðulega fyrir ógnandi framkomu fólks í annarlegu ástandi sem leitar sér aðstoðar.

Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert