Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld, að hann teldi Kaffibandalagið svonefnda milli stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi hafa verið mistök, því Samfylkingin ætti ekkert sameiginlegt með Frjálslynda flokknum svo dæmi séu nefnd.
Verið var að ræða um fylgistap Samfylkingarinnar og sagði Stefán Jón, að sér sárnaði staða flokksins nú. Sagðist hann telja að það hefðu verið stórkostleg taktísk mistök af þingflokki Samfylkingarinnar að binda trúss sitt við Frjálslynda flokkinn og Vinstri græna. Sagði hann að stjórnarandstaðan á Alþingi væri sundurleitur hópur þriggja flokka, sem ættu fátt sameiginlegt „og sem betur fer eigum við ekkert sameiginlegt með þessum Frjálslynda flokki," sagði Stefán Jón.