Hafrannsóknastofnunin auglýsir eftir einu eða tveimur skipum til hvalatalningar næsta sumar en á sama tíma verða hvalir taldir á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni samhliða karfarannsóknum. Þá verður einnig talið úr flugvél á landgrunssvæðinu.
Fram kemur í vefriti sjávarútvegsráðuneytisins, að talningin er hluti af verkefni sem Færeyjar, Noregur, Grænland og Kanada taka einnig þátt í. Unnið er að því innan Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO), að talningamenn verði líka á karfarannsóknaskipum Þjóðverja og Rússa. Á sama tíma verður talið við Bandaríkin og vesturströnd meginlands Evrópu.
Þetta er í fimmta sinn sem slík talning fer fram en áður var talið árin 1987, 1989, 1995 og 2001. Ráðuneytið segir, að gott mat hafi fengist á fjölda langreyða og hrefnu við Ísland úr þessum verkefnum. Niðurstöður bendi ennfremur til verulegrar fjölgunar hnúfubaka hér við land auk nokkurrar fjölgunar í öðrum tegundum svo sem langreyða og steypireyða.