Fíkniefnaleitarhundurinn Rocky Star Black Odin Bassi drapst um helgina. Bassi var þjóðþekktur ekki aðeins fyrir starf sitt við leit að fíkniefnum, heldur frekar fyrir að starfa við hlið þjálfara síns, Ísfirðingsins Þorsteins Hauks Þorsteinssonar fyrrverandi tollfulltrúa, við fíkniefnafræðslu til unglinga landsins um árabil.
Í frétt Bæjarins besta kemur fram að Bassi var sóttur til Óðinsvéa í Danmörku á vormánuðum 1997 og var farinn að starfa fyrir Tollgæsluna í Reykjavík við leit að fíkniefnum í september sama ár. Hann starfaði við fíkniefnaleit allt til ársins 2003. Þegar Bassi fór 18 mánaða í úttekt þar sem metin var hæfni hans til leitar að fíkniefnum og fékk hann einkunnina 63 af 64 mögulegum stigum. Jesper Jespersen yfirhundaþjálfari dönsku tollgæslunnar sá um úttektina sem fram fór í maí mánuði 1998 og hafði hann árið á undan haft yfirumsjón með þjálfun Bassa og umsjónarmanns hans.
Á starfsævi sinni vísaði Bassi á umtalsvert magn fíkniefna og fylgdi þjálfara sínum dyggilega bæði fyrir Tollgæsluna í Reykjavík og ýmis embætti lögreglunnar á landsvísu. Áramótin 1999 – 2000 hófst forvarnarstarf hjá Tollgæslunni og var það þróað að stórum hluta í kringum Bassa.