Forseti sækir umboð sitt til þjóðarinnar

Morgunblaðið beindi tveimur spurningum til skrifstofu forseta Íslands í gær. Spurt var hvers vegna forsetaembættið hefði ekki haft samráð við utanríkisráðuneytið áður en forseti Íslands ákvað að þekkjast boð um að taka sæti í þróunarráði Indlands og spurt var hvort hægt væri að greina á milli persónunnar Ólafs Ragnars Grímssonar og forsetans Ólafs Ragnars Grímssonar.

Svör skrifstofu forseta Íslands fara hér á eftir:

„Engin formleg eða stjórnskipuleg ástæða eða skylda er til að hafa slíkt samráð. Það er ekki vani að upplýsa utanríkisráðuneytið um einstök verkefni forseta nema um opinberar heimsóknir til eða frá Íslandi sé að ræða, eða þegar sérstaklega er óskað eftir liðsinni sendiráða okkar erlendis. Forsetaembættið telur afar mikilvægt að eiga ávallt góða samvinnu við utanríkisráðuneytið sem og önnur ráðuneyti og stofnanir. Forseti Íslands er þjóðkjörinn. Hann sækir umboð sitt til íslensku þjóðarinnar en heyrir ekki undir einstök ráðuneyti eins og skilja mátti af nýlegum leiðara ritstjóra Fréttablaðsins."

Svar skrifstofu forseta Íslands við síðari spurningunni er svohljóðandi: „Slíkt kemur í ljós þegar forseti lætur af embætti, eins og gerðist til dæmis við forsetaskipti árið 1996 um ýmis verkefni. Ákvarðanir forseta um að takast á hendur margvísleg verkefni, svo sem að vera virkur verndari félagasamtaka, fjársafnana eða alþjóðlegra atburða, sem og þátttaka hans í viðburðum eða verkefnum um lengri eða skemmri tíma binda í sjálfu sér ekki hendur eftirmanns hans í embætti. Sérhver forseti tekur sjálfstæðar ákvarðanir í þessum efnum og hefur að leiðarljósi að embætti forseta og íslenskri þjóð sé sómi sýndur."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert