Komið hefur til tals að Akureyrarkaupstaður gangi í alþjóðleg samtök bæja sem hafa það að markmiði að gera líf íbúa og gesta eins notalegt og kostur er með ýmsum hætti; t.d. því að draga úr hraða, streitu og alls kyns mengun. Samtökin voru stofnuð á Ítalíu fyrir nokkrum misserum og eru á máli innfæddra kölluð Citta slow. Enskumælandi menn tala um Slow City.
Hugmyndafræðin um Citta slow-samtökin er sú sama og hjá samtökunum sem Friðrik V. Karlsson, matreiðslumeistari á Akureyri, hefur kynnt fyrir bæjarbúum og raunar Íslendingum öllum, Slow Food. Á þeim vettvangi er lögð áhersla á svæðisbundinn mat; að samfélög haldi í sérstöðu sína með sínum hætti en ekki verði alls staðar í heiminum boðið upp á sama skyndibitann.
Að sama skapi er það stefna Citta slow að hver staður haldi sérstöðu sinni; að lögð sé áhersla á vellíðan fólks umfram gróða, á rólegheit fremur en mikinn hraða, að einstaklingurinn njóti þess að vera til.
Ýmis skilyrði eru sett fyrir inngöngu í samtökin. Til að mynda verður að halda hávaðamengun og umferð í lágmarki, áhersla er lögð á græn svæði og svæði fyrir gangandi fólk, styðja skal við bakið á bændum sem framleiða "svæðisbundinn" mat, sem og verslanir og veitingahús sem selja slíka vöru.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.