Gullsmiðir og starfsmaður skartgripasala, sem rætt var við í gær, sögðu að demantar sem þeir flyttu inn væru fengnir hjá virtum og traustum fyrirtækjum í löndum sem væru aðilar að svonefndu Kimberley-ferli sem ætti að koma í veg fyrir sölu blóðdemanta. Íslenska ríkið tekur ekki þátt í ferlinu.
Amnesty International hefur nýtt sér kvikmyndina Blóðdemantur með Leonardo DiCaprio í aðalhlutverki til að vekja athygli á málefninu. Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildarinnar, segir að þótt það sé mikilvægt að innlendir aðilar kaupi frá demantasölum í ríkjum sem eru aðilar að Kimberley-ferlinu, sé full ástæða fyrir íslenska neytendur að óska eftir að fá að sjá slíkt vottorð því slíkt eigi þátt í að skapa þrýsting á alþjóðamarkaði. Spurð sagði hún þó frekar ólíklegt að blóðdemantar væru í umferð á Íslandi.
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.