Þótt loftmengun á höfuðborgarsvæðinu sé hlutfallslega mun minni en í evrópskum borgum mælist hún engu að síður svipuð við helstu stofnæðar gatnakerfisins hér. Þetta má lesa út úr nýlegri rannsókn íslenskra vísindamanna sem sýnir m.a. magn niturdíoxíðmengunar, NO2, mælt fyrir utan hátt í hundrað heimili á höfuðborgarsvæðinu. Mælist magnið mismunandi eftir fjarlægðinni til næstu stofnbrautar og er mest næst þeim.
Þórarinn Gíslason læknir hefur rannsakað loftmengun á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir Baldri Arnarsyni frá niðurstöðunum í Morgunblaðinu í dag.
Rannsóknin á NO2-mengun við heimilin var hluti af svokallaðri "Evrópukönnun, lungu og heilsa" sem var birt í læknaritinu Occupational Environmental Medicine í desember sem aðilar í 20 borgum í 10 löndum, ásamt höfuðborgarsvæðinu, tóku þátt í. Voru þar skoðuð tengsl loftmengunar við langvinna berkjubólgu.
Þórarinn Gíslason, yfirlæknir á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og prófessor við Háskóla Íslands, og Davíð Gíslason ofnæmislæknir leiddu rannsóknina hér heima en Lovísa Guðmundsdóttir og Kristín Bára Jörundsdóttir önnuðust sjálfa framkvæmdina. Þátttaka var mjög góð en alls tóku 94 af 100 völdum heimilum sem leitað var til þátt í rannsókninni, sem framkvæmd var með einföldum mælibúnaði við eldhúsglugga.
Ítarlega er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.