Bíllinn sem fór í Ölfusá í gærkvöldi er enn í ánni. Grynningar eru að öllu jöfnu þar sem bíllinn lenti en heldur meira vatn er í ánni vegna rigninga og þess vegna er bíllinn nánast hálfur á kafi. Ökumaðurinn var heppinn að ekki var meira vatn í ánni sem hefði þá auðveldlega getað hrifið hann með sér.
Ennfremur gerði ökumaðurinn rétt í því að halda kyrru fyrir í bílnum þar til björgunarsveitarmenn komu á vettvang. Gert er ráð fyrir að bíllinn verði fljótlega fjarlægður úr ánni.
Umræður voru um það á Selfossi fyrir nokkrum árum eftir sviplegt slys að vegrið þyrfti að vera með Árveginum þar sem hann er næst ánni. Bent var á að rétt væri að setja upp vegrið þar sem hliðargötur koma að Árveginum. Á þeim tíma voru settir upp stólpar fram undan bílastæði við Nóatún en frekari slysavarnir hafa ekki verið settar upp.