Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, átti fund með forsetaritara, Örnólfi Thorssyni, í gær en áður hafði komið fram að utanríkisráðherra ætlaði að óska skýringa á að forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson, skyldi taka sæti í Þróunarráði Indlands án þess að upplýsa ráðuneytið fyrirfram.
„Við fórum yfir samskiptin okkar á milli. Þetta mál var eitt af þeim sem við fjölluðum um," segir Grétar Már. „Ég held það sé vilji hjá báðum að ákvarðanir séu teknar þannig að menn séu vel upplýstir á báða bóga." Ekki verði farið fram á að Ólafur hætti í ráðinu. „Þetta snýst ekki um það. Í sjálfu sér er þetta ágætis mál og okkur líst vel á starfið."
Forsetaembættið greinir á milli embættis forsetans og þeirrar persónu sem gegnir því. En er utanríkisráðuneytið sammála? „Nei, við lítum svo á að hann komi alltaf fram sem forseti. Forsetinn og einkapersónan í alþjóðasamskiptum er eitthvað sem ekki verður skilið á milli."