Framkvæmdir stöðvaðar við Álafosskvos

Frá mótmælunum við gömlu ullarverksmiðjuna í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ
Frá mótmælunum við gömlu ullarverksmiðjuna í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ mbl.is/Júlíus

Fram­kvæmd­ir hafa verið stöðvaðar við lagn­ingu tengi­braut­ar við Álafosskvos í Mos­fells­bæ. Á milli 50-60 manns tók þátt í mót­mæl­um þar í dag og kom í veg fyr­ir að hægt væri að vinna við fram­kvæmd­ir við lagn­ingu tengi­braut­ar um svæðið. Að sögn Hild­ar Mar­grét­ar­dótt­ur, sem tók þátt í mót­mæl­un­um, kom bygg­ing­ar­full­trúi Mos­fells­bæj­ar á staðinn og var farið með vinnu­vél­arn­ar í burtu af svæðinu í kjöl­farið.

Í til­kynn­ingu frá Varmár­sam­tök­un­um kem­ur fram að stór­virk­ar vinnu­vél­ar hafi grafið sér leið inn í trjálund­inn í hlíðinni á móts við gömlu ull­ar­verk­smiðjuna við Álafoss í Mos­fells­bæ. Und­an­farið ár hafa íbú­ar ásamt Varmár­sam­tök­un­um margít­rekað skorað á bæj­ar­stjórn Mos­fells­bæj­ar að láta meta áhrif tengi­braut­ar úr Helga­fellslandi um Álafosskvos á um­hverfið, íbú­ana og at­vinnu­starf­semi í Kvos­inni en án ár­ang­urs, að því er seg­ir í til­kynn­ingu.

Varmár­sam­tök­in hafa ákveðið að kæra úr­sk­urð um­hverf­is­ráðherra um að fram­kvæmd­in skuli ekki háð mati á um­hverf­isáhrif­um til dóm­stóla og hef­ur Katrín Theó­dórs­dótt­ir, héraðsdóms­lögmaður tekið að sér mál­sókn­ina, seg­ir í til­kynn­ingu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert