Framkvæmdir hafa verið stöðvaðar við lagningu tengibrautar við Álafosskvos í Mosfellsbæ. Á milli 50-60 manns tók þátt í mótmælum þar í dag og kom í veg fyrir að hægt væri að vinna við framkvæmdir við lagningu tengibrautar um svæðið. Að sögn Hildar Margrétardóttur, sem tók þátt í mótmælunum, kom byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar á staðinn og var farið með vinnuvélarnar í burtu af svæðinu í kjölfarið.
Í tilkynningu frá Varmársamtökunum kemur fram að stórvirkar vinnuvélar hafi grafið sér leið inn í trjálundinn í hlíðinni á móts við gömlu ullarverksmiðjuna við Álafoss í Mosfellsbæ. Undanfarið ár hafa íbúar ásamt Varmársamtökunum margítrekað skorað á bæjarstjórn Mosfellsbæjar að láta meta áhrif tengibrautar úr Helgafellslandi um Álafosskvos á umhverfið, íbúana og atvinnustarfsemi í Kvosinni en án árangurs, að því er segir í tilkynningu.
Varmársamtökin hafa ákveðið að kæra úrskurð umhverfisráðherra um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum til dómstóla og hefur Katrín Theódórsdóttir, héraðsdómslögmaður tekið að sér málsóknina, segir í tilkynningu.