Sannað að viðskiptavinir í verslun heyrðu í útvarpi á kaffistofu

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt kaupmann í Vestmannaeyjum til að greiða 23.216 krónur í stefgjöld vegna tónlistar, sem heyrðist í útvarpi í kaffistofu í verslun mannsins á árunum 2004 og 2005 en talið var sannað, að tónlistin hefði hljómað um verslunarrýmið og viðskiptavinir heyrt hana.

Það var Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar sem höfðaði málið en það sendi reikninga til kaupmannsins vegna þessa tónflutnings. Reikningarnir voru ekki greiddir þrátt fyrir innheimtutilraunir.

Forsvarsmaður verslunarinnar sendi STEF bréf í febrúar á síðasta ári og sagði að engin hljómflutningstæki væru eða hafi verið í versluninni og þar sem engin hljómflutningstæki eða útvarp væru í eigu verslunarinnar var þess farið á leit að innheimtu yrði hætt.

Í svarbréfi STEF segir, að við athugun á tónflutningi í versluninni á árunum 2004 og 2005 hafi komið í ljós að þar hafi verið leikin tónlist opinberlega. Hafi tónlistin hljómað um alla búð en átt upptök sín í skoti andspænis inngöngudyrum, rétt aftan við afgreiðsluborð, skoti, sem sennilega sé inngangur inn á lager verslunarinnar. Segir í bréfinu að ekki skipti máli hvort tónlistin hafi komið úr útvarpi eða hljómflutningstækjum, tónlistin hafi hljómað greinilega um alla verslunina og sé sá tónflutningur á ábyrgð hennar.

Kaupmaðurinn sagðist fyrir dómi hafa komið því á framfæri við forsvarsmenn stefnenda að lítið ferðaútvarpstæki væri á lager eða kaffistofu sem væri vel afgirt frá versluninni með viðarhurð. Væri umrætt tæki aðeins fyrir starfsmenn stefnda og alls ekki til opinbers flutnings.

Dómarinn vísar hins vegar í höfundarlög þar sem segir, að það teljist sjálfstæð opinber birting þegar útvarpsflutningi á tónlist eða bókmenntaverki sé dreift til almennings með hátalara eða á annan hátt. Beri þá notanda að greiða framleiðanda þess og listflytjanda sameiginlega þóknun fyrir afnotin.

Kaupmaðurinn var dæmdur til að greiða 23.216 krónur í STEF-gjöld auk dráttarvaxta og 150 þúsund króna í málskostnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert